Titringur fyrir leiðtogafund

Angela Merkel og Nicolas Sarkozy á sameiginlegum blaðamannafundi á sunnudag.
Angela Merkel og Nicolas Sarkozy á sameiginlegum blaðamannafundi á sunnudag. Reuters

Fundum fjármálaráðherra ESB-ríkjanna sem halda átti á morgun hefur verið frestað og svo virðist sem snurða sé hlaupin á þráðinn í viðræðum um nýjar aðgerðir til að slá á skuldavanda evru-svæðisins. Enn er þó stefnt að fundi leiðtoga ESB-ríkjanna. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fjármálaráðherrar allra ESB-ríkjanna og fjármálaráðherrar evruríkjanna ætluðu að funda í Brussel á morgun en af því verður ekki.

BBC segir að afleiðingin gæti verið sú að lengur taki að ná samkomulagi um hvernig eigi að stækka björgunarsjóð ESB og tryggja afskriftir á skuldum gríska ríkisins. Þetta hafi þó ekki verið staðfest. Fréttaritari BBC í Brussel segir að litið sé svo á að frestun fundanna sé að mestu formsatriði. Úr því að leiðtogar ESB ætli að funda sé ekki einnig þörf fyrir fund fjármálaráðherranna.

Viðskiptaritstjóri BBC telur að leiðtogarnir muni ná saman um meginþætti björgunarpakkans en það komi síðan í hlut fjármálaráðherranna að ljúka samningaviðræðum.

Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum lækkaði vegna fregna um að samkomulag myndi ekki nást fyrir leiðtogafundinn. Dow Jones-vísitalan lækkaði um 1,74% og Nasdaq lækkaði um 2,26%.

Þýska Sambandsþingið, Bundestag, mun á morgun, miðvikudag, greiða atkvæði um leiðbeiningar um samningsafstöðu Þýskalands í viðræðunum og er þeirrar atkvæðagreiðslu beðið með eftirvæntingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka