Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir að leysa verði grundvallarveikleika og gloppur í uppbyggingu Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Þetta kom fram í máli Merkel er hún fjallaði um málefni evru-svæðisins á þýska þinginu í dag. Segir hún að ef ekkert verði að gert nú gerist það aldrei.
Leiðtogar Evrópusambandsins munu hittast á fundi síðar í dag til þess að ræða vanda evru-svæðisins en að sögn Merkel getur vandinn varla verið meiri. „Þetta er mesta áskorun sem Efnahags- og myntbandalagið hefur staðið frammi fyrir," segir Merkel.
Gott ástand í Evrópu er Þjóðverjum til hagsbóta. Þýskaland getur einungis staðið fjárhagslega vel að vígi ef Evrópa stendur vel að vígi. „Ef evran fellur þá fellur Evrópa," bætti hún við.