Ítalir móðgaðir út í Merkel og Sarkozy

Ítalir eru móðgaðir út í Angelu Merkel og Nicolas Sarkozy.
Ítalir eru móðgaðir út í Angelu Merkel og Nicolas Sarkozy. Reuters

Utanríkisráðherra Ítalíu, Franco Frattini, varð pirraður á glottinu á Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, þegar sá spurði hann út í fjárhagsáætlun Ítalíu á krísufundi evruríkjanna í gær. Þá er Angela Merkel  sögð hafa beðið Silvio Berlusconi afsökunar á því að þau Sarkozy hafi skipst á flírubrosi yfir efnahag Ítalíu.

Frattini fannst hann ekki beinlínis niðurlægður á fundinum en, „líkamstjáning Sarkozy forseta fór í taugarnar á mér," sagði hann í viðtali við dagblaðið Frankfurter Allgemeina Zeitung. „Framkoma hans var ekki í lagi. Jú, Ítalía þarf vissulega að vinna heimavinnuna sína, en það þýðir ekki að það sé í lagi að fífla okkur. Þetta var augljóslega vandræðalegt fyrir kanslarann líka," sagði hann og vísaði til Angelu Merkel. Viðtalið verður birt í heild sinni á morgun.

Núningur virðist hafa verið milli leiðtoga risaríkjanna á evrusvæðinu, Frakklands og Þýskalands og þeirra ríkja sem standa hallari fæti, á fundinum. Í gær sagði Silvio Berlusconi frá því að Angela Merkel hefði beðið hann afsökunar á því að hún og Sarkozy hafi glott hvort til annars á blaðamannafundi í Brussel á sunnudag.

Merkel og Sarkozy virtust þá eiga í vandræðum með að svara þeirri spurningu hvort þau treystu Berlusconi til að sigrast á skuldavanda Ítalíu. Myndir af þeim glottandi birtust á forsíðum ítalskra blaða, sem fordæmdu leiðtogana fyrir að gera lítið úr Ítalíu.

Talsmaður Angelu Merkel hafnar því að hún hafi beðið Berlusconi afsökunar, enda hafi ekki verið neitt til að afsaka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka