Leiðtogar ESB ná saman

Sarkozy skýrir frá niðurstöðu leiðtoganna í Brussel í nótt.
Sarkozy skýrir frá niðurstöðu leiðtoganna í Brussel í nótt. reuters

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna náðu í nótt „þríliða“ samkomulagi um lausn á skuldavanda Grikkja og til að standa vörð um evruna. Liður í því er að bankar hafa fallist á að afskrifa 50% skulda Grikklands.

Þá samþykktu leiðtogarnir að stækka björgunarsjóð ESB (EFSF)  úr 440 milljörðum evra í 1.000 milljarða. Og samkomulag náðist einnig um endurfjármögnun banka sem afskrifa skuldir Grikkja en fjárþörf þeirra er metin á 106 milljarða evra.

Samkomulagið hafði strax þau áhrif að gengi evrunnar hækkaði á gjaldeyrismarkaði og eru fjárfestar sagðir bjartsýnni á hagvaxtarhorfur í ESB-ríkjunum. 

„Evrulöndin hafa brugðist við skuldakreppunni með trúverðugum og metnaðarfullum hætti,“ sagði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti á blaðamannafundi í Brussel er samkomulag leiðtoganna var í höfn.

Ótti við að fjárhagsvandi evruríkjanna væri óleysanlegur og að evran myndi ekki lifa af sem gjaldmiðill hafa sett sitt mark á fjármálamarkað mánuðum saman. Sarkozy sagði að sökum þess hversu mál væru flókin og markslungin og nauðsyn allsherjar samstöðu um ráðstafanir til lausnar þeim hafi samningar verið tímafrekir. Nú lægi hins vegar fyrir niðurstaða, kraftmikið svar „sem heimurinn myndi allur fagna“.

„Aðgerðirnar sem við höfum samþykkt í nótt eru víðtækar og staðfesta að Evrópuríkin munu gera það sem nauðsynlegt er til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika,“ sagði forseti framkvæmdastjórnara ESB, Jose Manuel Barroso. „Ég hef sagt það áður og segi það enn; þetta er ekki spretthlaup, heldur maraþon.“

Leiðtogarnir funduðu stíft frá því síðdegis í gær og fram …
Leiðtogarnir funduðu stíft frá því síðdegis í gær og fram á nótt. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka