Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur verið í óformlegum viðræðum við Seif al-Islam, son Gaddafis. Þetta staðfestir talsmaður dómsstólsins og segir viðræðurnar hafa átt sér stað í gegnum milligöngumann.
Herþotur NATO munu yfirgefa Líbíu á mánudaginn, en heimild Öryggisráðs SÞ um þátttöku í átökum hefur verið felld úr gildi. NATO hvetur ný stjórnvöld í landinu til að byggja upp lýðræðisríki sem er grundvallað á mannréttindum.
„Þetta er ein best heppnaða aðgerðin í sögu NATO,“ sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, við AFP-fréttastofuna. Rasmussen segir að enn sé mikið verk óunnið í Líbíu. NATO hefur boðist til að aðstoða ný yfirvöld við uppbyggingu öryggismála í landinu.
Þjóðarráð Líbíu hefur lofað að þeir sem beri ábyrgð á dauða Gaddafis verði sóttir til saka. Þetta í í andstöðu við fyrri yfirlýsingar Þjóðarráðsins, sem hafa verið á þann veg að Gaddafi hafi látið lífið í átökum á milli andstæðra fylkinga.
„Við höfum lýst því yfir að öll brot á mannréttindum verði rannsökuð af Þjóðarráðinu,“ segir Abdel Hafiz Ghoga, varaformaður ráðsins.
NATO hefur staðfastlega neitað að hafa haft Gaddafi að skotmarki í löftárásunum, engu að síður hæfði ein af þotum NATO bílalest Gaddafis, þegar hann var á flótta frá borginni Sirte.
Fram á mánudaginn mun NATO fylgjast grannt með ástandi mála í Líbíu og grípa inn í, þyki ástæða til að halda að óbreyttum borgurum sé ógnað, segir Rasmussen.
Mustafa Abdel Jalil, formaður Þjóðarráðs Líbíu, fór fram á að NATO yrði í landinu fram að áramótum. Hann segir stuðningsmenn Gaddafis enn skapa ógn í landinu. Ótti Jalils fékk byr undir báða vængi, þegar spurðist að Abdullah al-Senussi, fyrrum yfirmaður leyniþjónustu Gaddafis, hefði komist úr landi og væri nú staddur í Mali í gegnum Níger. Ekki er vitað hvort sonur Gaddafis, Seif al-Islam, er í för með honum, en fregnir herma að hann hafi komist undan til Níger.