Undanfarin ár hefur öfga gætt í sívaxandi mæli í norrænunum stjórnmálum. Margir Norðurlandabúar telja þó að pólitískar öfgar séu fyrirbæri sem tengist öðrum heimshlutum.
Þetta er umfjöllunarefni vefsíðunnar Analys Norden og þar spyr norski stjórnmálaskýrandinn Aslak Bonde hvort það sé barnalegt að vera opinn fyrir hugmyndafræði og skoðunum annarra.
„Þegar Jens Stoltenberg hvatti okkur til að mæta ofbeldi með lýðræði sagði hann að við mættum heldur aldrei vera barnaleg eða trúgjörn,“ segir Bonde og segir að erfitt sé að sameina þetta. „Það er líka erfitt að leggja mat á hvort samfélagið hefur sundrast eða hvort það stendur betur saman eftir hryðjuverkin, hvort að hér sé jarðvegur fyrir minni eða meiri öfgar en áður.“
„Anders Behring Breivik er á móti innflytjendum, hann trúir á „Eurarabíu“ kenninguna og vildi helst vera uppi á tímum musterisriddaranna. En það er illmögulegt að skilja á milli þess sem hann hefur skrifað á netið og annarra skrifa, sem hafa fengist birt í dagblöðum í nafni tjáningarfrelsis,“ segir Bonde. „Það sem aðskilur er að hann hafði þörf fyrir að nota ofbeldi.“
Finnski blaðamaðurinn og háskólakennarinn Markku Heikkilä skrifar að síðasta pólitíska morðið hafi verið framið í Finnlandi árið 1922. Í dag sé það staðreynd að öfgahreyfingar fái sífellt meira fylgi, fyrst og fremst sé um að ræða hægri-öfgamenn. „Fyrir ekki svo löngu síðan var orðið „Hatprat“ (Hatursummæli) óþekkt í Finnlandi, en nú er þetta hugtak hluti af daglegri umræðu hjá öllum þeim sem fylgjast með nafnlausun spjall- og samskiptasíðum á netinu. Þar fá innflytjendur, fólk sem ver innflytjendur og ýmsir minnihlutahópar að finna fyrir því,“ segir Heikkilä.
Egill Helgason tjáir sig um ástandið í íslenskum stjórnmálum og ber grein hans yfirskriftina „Tímar pólitískrar upplausnar“. Þar segir Egill að hér á landi hafi verið mikill óstöðugleiki í stjórnmálum, fjöldamótmæli þar sem eldar hafi verið tendraðir og steinum kastað. Fáir hafi þurft að sæta afleiðingum gjörða sinna. Egill bendir á að hér á landi hafi öfgaflokkar ekki hlotið hljómgrunn, þó að eitthvað hafi verið um slíka flokka á vinstri vængnum upp úr 1970. „Það segir nokkuð um þjóðfélagið að einn af leiðtogum þar er nú Seðlabankastjóri, “skrifar Egill.
„Íslensk stjórnmál eru í upplausn. Segja má, að þjóðin hafi færst í átt að aukinni þjóðernishyggju og á sama tíma misst trú á markaðnum. Jafnvel hægrimenn eru menn fullir efasemda í garð frjálsa markaðsafla sem gengu ekki upp hér,“ skrifar Egill.