Árásin sú blóðugasta í 10 ár

Að minnsta kosti 17 féllu í sjálfsmorðssprengjuárás í Kabúl í dag. Þar af eru 13 bandarískir hermenn. Árásin er sú blóðugasta sem gerð er gegn hersveitum Nató síðan hernaður hófst í Afganistan árið 2001. 

Bíl sem var hlaðinn sprengjuefnum var ekið að bílalest með hermönnum alþjóðaliðs Nató og sprakk þar í loft upp. Auk hermannanna féllu þrír saklausir vegfarendur og einn lögregluþjónn. Talíbanar hafa lýst ábyrgð árásarinnar á hendur sér.

Banvænar árásir sem þessar eru fremur fátíðar í Kabúl, þar sem öryggisgæsla er meiri en víðast hvar annars staðar í Afganistan. Fyrir tæpum tveimur mánuðum gerðu hinsvegar vopnaðir uppreisnarmenn 20 klukkustunda umsátur um sendiráð Bandaríkjanna í höfuðborginni. 12 manns féllu í þeirri árás.

Stefnt er að því að erlendar hersveitir hafi yfirgefið Afganistan í árslok 2014. Margir Afganir óttast hinsvegar að þegar þar að komi muni afganskar öryggissveitir ekki standa undir því að gæta að öryggi borgaranna gagnvart uppreisnarmönnum og borgarastríð kunni þá að brjótast út.

Ofbeldið undanfarið hefur verið með versta móti síðan stríðið hófst fyrir 10 árum að sögn Sameinuðu þjóðanna, þrátt fyrir að nú séu þar yfir 130.000 erlendir hermenn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert