Assad varar við afskiptum Vesturlanda

Bashar al-Assad forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad forseti Sýrlands. Reuters

Sýrlenskir skriðdrekar gerðu skotárás í kvöld á sögulegt hverfi í borgini Homs með þeim afleiðingum að a.m.k. þrír létust, að sögn mótmælenda.

Ofbeldið kemur í kjölfar eins blóðugasta dags hinna sjö mánaða löngu mótmæla, því á föstudag féllu um 40 manns í átökum tengdum mótmælunum í landinu. Alls hafa rúmlega 3.000 manns dáið í Sýrlandi síðan mótmælin gegn forseta landsins, Bashar al-Assad, brutust út í mars.

Breska blaðið Sunday Telegraph birtir viðtal við Assad í dag þar sem hann varar við því að ef Vesturvöldin hafi afskipti af Sýrlandi muni það leiða af sér „skjálfta“ og að Sýrland gæti orðið eins og Afganistan, „eða tíu sinnum verra en í Afganistan“. Hann segir að fólk verði að átta sig á því að Sýrland sé gjörólíkt Egyptalandi, Túnis og Jemen bæði hvað varðar söguna og stjórnmálin.

„Sýrland er kjarninn á þessu svæði núna, þar liggur brotalínan, og ef þú ruggar bátnum þar þá geturðu valdið stórum skjálfta,“ segir Assad í viðtalinu. „Vandamál sem koma upp í Sýrlandi munu brenna allan heimshlutann. Ef markmiðið er að kljúfa Sýrland, þá munu Mið-Austurlönd klofna.“

Ummæli Assad féllu eftir að aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallaði enn á ný eftir því að yfirvöld í Sýrlandi hætti að berja niður mótmælin í landinu. Ban Ki-moon sagði að Assad verði að bregðast við ástandinu með raunverulegum umbótum, en ekki með „kúgun og ofbeldi“.

Assad viðurkennir í viðtalinu við Sunday Telegraph að sýrlensk stjórnvöld hafi gert mistök í upphafi mótmælanna, en nú sé aðeins verið að berjast gegn hryðjuverkamönnum. Mótmælendur segja hinsvegar að ofbeldinu sé beint gegn almennum borgurum. Utanríkisráðherrar Arababandalagsins fordæmdu í gær Sýrland fyrir „áframhaldandi morð á almennum borgurum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka