Hundruð Moskvubúa söfnuðust í dag saman til að heiðra minningu þeirra þúsunda sem voru drepin í harðræðistíð fyrrum Sovétleiðtogans Jósef Stalín. Athöfnin fór fram fyrir utan skrifstofur FSB, leyniþjónustu Rússlands, en þar voru höfuðstöðvar leynilögreglunnar á tímum Sovétríkjanna.
Mannréttindasamtökin Memorial skipulögðu athöfnina, en samtökin voru stofnuð fyrir hrun Sove´tríkjanna m.a. til að skrásetja glæpi sem framdir voru með vitund Stalíns. Það voru fyrrum aðgerðarsinnar og pólitískir fangar sem leiddu athöfnina með því að lesa upp lista af nöfnum fórnarlamba.
Yfir 30.000 manns voru skotin til bana í Moskvu á árunum 1937 og 1938, en þau mörkuðu hápunktinn á hreinsunum Stalíns. Rússnesk yfirvöld hafa verið sökuð um að leggja ekki sitt af mörkum til að tryggja að rússneskir borgarar gleymi ekki glæpum Stalíns og jafnvel um að hindra rannsóknir á stjórnartíð hans.