Frá árinu 2005 hafa ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands 12 sinnum þurft að fá samþykki Karls prins af Wales fyrir lagasetningu um ýmis mál. Ástæðan er sú að samkvæmt lögum hefur hann neitunarvald í málum sem snerta hans hagsmuni.
Frá þessu er sagt í frétt í breska blaðinu Guardian. Lögin sem um ræðir fjalla t.d. um öryggi á vegum, veðmál og ólympíuleikana í London. Lögin sem færa prinsinum þetta vald voru sett til að vernda hagsmuni hans, en í fréttinni segir að þingið hafi aldrei ætlast til að þau færðu prinsinum vald til að neita lögum sem þingið samþykkir. Þarna sé búið að skapa stjórnarskrárvanda sem þingmenn viti ekki hvernig sé best að leysa.
Prinsinn er hertogi af Cornwall og sem slíkum ber honum að gæta hagsmuna hertogadæmisins. Margvísleg lög sem þingið setur snerta hertogadæmið með beinum og óbeinum hætti.