Bandaríkjamenn hætta að borga til UNESCO

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í kvöld, að þau myndu ekki greiða aðildargjöld að UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, í nóvember, eftir að Palestínumenn fengu í dag fulla aðild að stofnuninni.

Tillaga um fulla aðild Palestínumanna að UNESCO var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða þrátt fyrir harða andstöðu Bandaríkjanna og Ísraels. Alls tóku 173 ríki þátt í atkvæðagreiðslunni. 107 voru fylgjandi aðild Palestínumanna, 14 voru andvíg og 52 sátu hjá.

Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með tillögunni voru Kína, Rússland, Indland, Brasilía og Suður-Afríka. Kanada og Þýskaland voru meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn og Bretar sátu hjá.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í kvöld, að 60 milljóna dala greiðsla, sem inna átti af hendi í nóvember, verði ekki greidd. Aðildargjöld Bandaríkjanna svara til um 20% af heildarveltu UNESCO. 

Palestínumenn sóttu í september um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum og er öryggisráð SÞ nú að fjalla um umsóknina. Gert er ráð fyrir því að ráðið greiði atkvæði um málið í nóvember.  Bandaríkjamenn hafa hótað að beita neitunarvaldi gegn umsókninni.

Fulltrúar á þingi UNESCO fagna eftir atkvæðagreiðsluna í dag.
Fulltrúar á þingi UNESCO fagna eftir atkvæðagreiðsluna í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert