Búast við sigri Palestínumanna

Merki UNESCO
Merki UNESCO

Ísraelsk stjórnvöld búa sig undir að umsókn Palestínumanna um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum verði samþykkt á allsherjarþingi UNESCO, menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ, í dag. Verði það niðurstaðan hætta bæði Ísraelar og Bandaríkjamenn að styrkja stofnunina.

„Það fer fram kosning og Palestínumenn munu vinna. Það er hausatalan sem við höfum,“ segir Nimrod Barkan, fulltrúi Ísraela hjá UNESCO. Meirihluta tveggja þriðju þeirra 193 fulltrúa sem hafa kosningarétt þarf til þess að umsókn Palestínumanna verði samþykkt.

Fari kosningin á þann veg sem Ísraelar búast við, hætta bandarísk stjórnvöld að styrkja UNESCO vegna laga sem samþykkt voru á 10. áratugnum sem bannar þarlendum stjórnvöldum að styrkja stofnun SÞ sem veitir Palestínumönnum fulla aðild. Þýddi það að UNESCO yrði af jafnvirði átta milljarða króna á ári, um 22% af fjárhagsáætlun stofnunarinnar.

Segir Barkan að líklega muni Ísraelar gera slíkt hið sama en árlegt framlag þeirra nemur um þremur prósentum af fjárhagsáætlun UNESCO.

„Ég held ekki að við höldum áfram að greiða árlegt framlag okkar og að við fylgjum Bandaríkjamönnum eftir í þeim efnum. Þannig verður fjórðungi fjárveitinga kippt undan stofnuninni. Það gerir UNESCO ókleift að uppfylla skyldur sínar,“ segir Barkan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert