Hann ávann sér andlátið

Myndir af Steve Jobs voru sýndar á skjám í verslunum …
Myndir af Steve Jobs voru sýndar á skjám í verslunum Apple þegar hann dó. Reuters

Andlátsorð Steve Jobs, forstjóra og eins stofnenda Apple, voru „Oh Wow“ (ó, vá) sem hann endurtók þrisvar sinnum. Hann leit á Patty systur sína, horfði svo lengi á börnin sín og loks á Laurene eiginkonu sína. Eftir það missti hann meðvitund. 

Þetta kom fram í minningarorðum Mona Simpson, systur Steve Jobs, sem hún flutti við minningarathöfn í Memorial Church við Stanford háskóla. Minningarorðin birtust í vefútgáfu New York Times.

Mona Simpson sagði að hún hafi verið orðin 25 ára gömul þegar hún kynntist þessum bróður sínum, Steve Jobs. Hún lýsti bróður sínum, velgengni hans í viðskiptum en einnig vonbrigðum þegar hann var settur af sem forstjóri Apple. Þá segir hún frá veikindastríði hans um árabil.

Simpson segir t.d. frá því að þegar Jobs var í öndunarvél og gat því ekki talað hafi hann beðið um skrifblokk. Hann rissaði upp skissu að tæki til að festa iPad við sjúkrarúm. Hann hannaði ný tæki til að fylgjast með vökvagjöf og röntgentæki. Þá endurhannaði hann gjörgæslustofuna sem honum þótti ekki mjög sérstök fyrir.

Hún segir að líklega sé ekki rétt að tala um andlát þess sem verið hefur með krabbamein árum saman óvænt. Samt hafi andlát Jobs verið óvænt. Jobs kallaði hana að dánarbeði sínu og bað hana að flýta sér. Það væri ekki víst að hún kæmi í tíma.

Mona Simpson náði að hitta bróður sinn meðan hann var enn með meðvitund.

„Svo, eftir nokkra hríð, þá var það ljóst að hann myndi ekki vakna aftur. Öndunin breyttist. Hún varð áköf, ákveðin og tilgangsrík. Ég fann að hann taldi skrefin og píndi sig lengra áfram.

Ég komst að því að hann vann líka að þessu. Steve lenti ekki í því að deyja, hann ávann sér andlátið,“ sagði Simpson (í lauslegri þýðingu).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert