Japanskur embættismaður drakk vatn sem kom úr Fukushima Dai-ichi kjarnorkuverinu í Japan eftir að blaðamenn skoruðu á hann að sýna fram á að vatnið væri drykkjarhæft.
Breska ríkisútvarpið segir að Yashuhiro Sonoda, sem er talsmaður stjórnvalda, hafi virkað taugaóstyrkur og verið skjálfhentur þegar hann drakk vatnsglas á blaðamannafundi, sem var sýndur í beinni útsendingu.
Vatnið sem hann drakk kemur úr pollum sem eru undir tveimur kjarnakljúfsbyggingum. Vatnið er hreinsað áður en það er notað í ýmis verkefni í kjarnorkuverinu, m.a. til að vökva verin.
Á fundinum þráspurðu blaðamenn hvort það væri í lagi að drekka vatnið.
„Það er ekki hægt að staðfesta öryggi með því einfaldlega að drekka [vatn sem hefur verið hreinsað]. Besta leiðin er að upplýsa almenning með gögnum,“ sagði Sonoda.
Þá hyggjast japönsk stjórnvöld leyfa blaðamönnum að skoða kjarnorkuverið 12. nóvember nk. Þetta verður í fyrsta sinn sem fréttamönnum er leyft að skoða svæðið frá því náttúruhamfarir ullu gríðarlegri eyðileggingu þann 11. mars sl.