Kirkjugestir skilji byssuna eftir heima

Skammbyssa af gerðinni Colt Police Positive.
Skammbyssa af gerðinni Colt Police Positive.

Fimm kaþólskir biskupar í Wisconsin í Bandaríkjunum biðluðu í dag til sóknarbarna sinna að taka ekki með sér byssur í messu. Tilefnið eru ný lög sem tóku gildi í Wisconsin í dag og heimila fólki að bera vopn innan klæða.

„Hver svo sem afstaða sóknarbarna er til skotvopna biðjum við alla að íhuga vandlega að bera ekki með sér skotvopn inn í kirkjur og virða þannig þessa helgu staði,“ segir í yfirlýsingu sem biskuparnir sendu frá sér í gær, en lögin tóku gildi í dag. Biskuparnir sögðu þó að það væri undir hverri og einni kirkju komið hvort byssur yrðu beinlínis bannaðar þar innandyra.

Með lagabreytingunni í Wisconsin er Illinois orðið eina ríki Bandaríkjanna sem ekki heimilar vopnaburð innan klæða, að sögn Reuters. Vopn sem löglegt er að bera í Wisconsin skv. lögunum eru m.a. skammbyssur, rafbyssur, hnífar og kylfur. Vélbyssur, rifflar og haglabyssur eru hins vegar bannaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert