Bandaríkin ættu fyrst að reyna samningaviðræður við nágrannaríki Afganistan, áður en þau setjast að samningaborðinu með Talíbönum um hvernig eigi að binda endi á áratugarlangan stríðsrekstur í Afganistan. Þetta segir Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Kissinger tók þátt í pallborðsumræðum hjá hugmyndabankanum Woodrow Wilson International Center í Washington í dag. Hann fór ekki leynt með gagnrýni sína á stefnu Hvíta hússins í Afganistan og sagði að ríkisstjórnin hefði verulega skaðað eigin möguleika til að ná samkomulagi í Afganistan, með ótímabærum yfirlýsingum um brotthvarf hersins.
„Í grunninn er ég ekkert mótfallinn samningaviðræðum við talibana. En ef tilgangurinn er að ljúka stríðinu þá er þetta gert í kolvitlausri röð. Fyrstu samningaviðræður ættu að eiga sér stað við nágrannaþjóðirnar,“ sagði hann og vísaði til Pakistan, Indlands og Írans, sem öll munu hafa aukin áhrif í Afganistan eftir brotthvarf Bandaríkjahers. Hann sagði jafnframt að ef Bandaríkin ætli sér að semja við talíbana þá þurfi þau að gera það í samráði við önnur ríki í heimshlutanum.
Áætlað er að síðustu hersveitir Nató yfirgefi Afganistan árið 2014 og því er talsverður þrýstingur á að samkomulag náist um frið. Hillary Clinton utanríkisráðherra viðurkenndi í október að Bandaríkin hefðu átt í viðræðum við Haqqani samtök talíbana, sem sögð eru helsti óvinur Bandaríkjanna í austurhluta Afganistan. Kissinger benti á að það bjóði ekki upp á sérlega góða samningsstöðu að hefja brottflutning hersins áður en samningaviðræður hefjist.
Henry Kissinger var öryggismálaráðherra og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Richard Nixons, á tímum Víetnam stríðsins.