Engan sakaði þegar Boeing 767 farþegaþota pólska flugfélagsins LOT nauðlenti með 230 farþega á flugvellinum í Varsjá í dag. Mikill viðbúnaður var á flugvellinum og sjónvarpsáhorfendur biðu með öndina í hálsinum, en lendingin var sýnd í beinni útsendingu. Hún tókst afar vel miðað við aðstæður.
Þotan var að koma frá New York en þegar hún nálgaðist Varsjá kom í ljós að lendingarbúnaðurinn var bilaður. Ráðist var í miklar öryggisráðstafanir, s.s. að fella niður önnur flug, loka flugbrautum og götum í kringum flugvöllinn. Þá sveimaði flugvélin í góðan tíma yfir flugvellinum á meðan eldsneyti var losað úr henni.
Þotunni var svo magalent á flugvellinum með tilheyrandi eldglæringum. Farþegar voru skelkaðir en líkt og áður segir sakaði engan þeirra.