Assange framseldur

Julian Assange kemur til dómhússins í Lundúnum í morgun.
Julian Assange kemur til dómhússins í Lundúnum í morgun. Reuters

Tveir dómarar við yfirrétt í Lundúnum staðfestu í morgun úrskurð undirréttar um að Julian Assange, stofnandi uppljóstrunarvefjarins WikiLeaks, skuli framseldur til Svíþjóðar. Sænska ríkissaksóknaraembættið vill yfirheyra Assange vegna ásakana um að hann hafi beitt tvær konur kynferðislegu ofbeldi.

Hugsanlegt er að Assange muni reyna að skjóta málinu til hæstaréttar Bretlands en óvíst er að rétturinn myndi taka málið fyrir.

Assange kom til dómhússins í morgun með draumsóley í hnappagatinu. Í Bretlandi er það blóm er tákn vopnahlésdagsins svonefnda en 11. nóvember ár hvert er loka heimsstyrjaldarinnar fyrri minnst. Assange tjáði sig ekki við fjölmiðla áður en dómurinn var kveðinn upp.

Assange var handtekinn í desember í Lundúnum og í kjölfarið úrskurðaði dómari að hann skyldi framseldur til Svíþjóðar. Assange áfrýjaði þeim úrskurði. Hann hefur gengið laus gegn tryggingu og ströngum skilyrðum. 

Assange hefur neitað ásökununum, sem bornar hafa verið á hann í Svíþjóð og segir þær vera af pólitískum rótum runnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert