Getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins Reuters

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, varaði við því í dag að ómögulegt sé að segja til um hvaða afleiðingar það hefur ef gríska þjóðin hafnar í þjóðaratkvæðagreiðslu samkomulagi varðandi skuldavanda landsins.

Án samkomulags Grikkja við áætlun ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er staða grísks almennings mun verri, einkum og sér í lagi þeirra verst stöddu. Ómögulegt er að segja til um hverjar afleiðingarnar verða, sagði Barrosso þegar hann kom til Cannes í Frakklandi í dag til að taka þátt í viðræðum milli leiðtoga Evrópuríkja og forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou.

Atkvæðagreiðslan á að snúast um evru-aðild

Samkvæmt fréttaskýrendum á Papandreou ekki von á góðu á fundinum með Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Herman Van Rompuy, forseta ESB, Barroso,  leiðtoga evru-ríkjanna, Jean-Claude Juncker og framkvæmdastjóra AGS, Christine Lagarde í dag en allir fjármálamarkaðir hafa skolfið síðustu tvo daga vegna yfirlýsingar Papandreou í fyrrakvöld um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um samkomulagið í Grikklandi.

Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar innan úr ríkisstjórn Frakklands munu þau Sarkozy og Merkel ætla að senda Papandreou skýr skilaboð á fundinum: Að þjóðaratkvæðagreiðslan snúist um aðild Grikkja að evru-svæðinu. Annað hvort fari Grikkir úr sambandinu eða ekki. Það yrði í fyrsta skipti sem Frakkar og Þjóðverjar veki alvarlega máls á því hvort ríki eigi að yfirgefa evru-svæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert