Marglyttur hafa gert innrás við strendur Kanaríeyja, að sögn fréttavefjar Aftenbladet í Noregi. Mörgum baðströndum hefur verið lokað og margir ferðamenn fengið brunasár af völdum marglyttnanna.
Sem kunnugt er flykkjast Norðurlandabúar til Kanaríeyja til að njóta veðurblíðu þar meðan vetur ríkir á norðurslóðum. Marglyttnanna hefur orðið vart við margar vinsælar baðstrendur á eyjunum.
Á sunnudaginn var þurftu margir ferðamenn á Gran Canaria að leita læknis eftir að hafa komist í snertingu við marglyttur og fengið brunasár. Í gær var öllum baðströndum á Lanzarote lokað vegna marglyttuplágunnar.
Alls þurftu 79 manns að leita sér læknishjálpar vegna marglyttubruna. Þeir voru að baða sig í sjónum við Playa del Inglés og Maspalomas. Venjulega þarf fólk ekki að óttast marglyttur við þessar strendur en ástandið var svo slæmt á sunnudaginn var að baðverðir báðu fólk að sleppa því að fara í sjóinn.
Yfirvöld á Lanzarote drógu upp rauða fánann á baðströndum á mánudag og lokuðu baðströndum vegna marglyttuplágunnar.