Reiðarslag fyrir frið

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands.
William Hague, utanríkisráðherra Bretlands. Reuters

Bresk stjórnvöld fordæma ákvörðun Ísraelsmanna að byggja tvö þúsund hús fyrir landtökumenn til þess að refsa Palestínumönnum fyrir að hafa gengið í UNESCO. Segja Bretar að það sé reiðarslag fyrir friðarumleitanir á svæðinu.

Þá lýsti William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, áhyggjum af þeirri ákvörðun Ísraela að frysta skatttekjur Palestínumanna sem þeir innheimta fyrir þá. Segir Hague þá ákvörðun engum þjóna.

„Við þurfum að sjá skref í átt að friði, ekki aðgerðir sem sundra og einangra málsaðila frekar og grafa undan möguleikum á samningaviðræðum. Við hvetjum Ísraela til þess að endurskoða báðar þessar ákvarðanir og báða aðila til þess að sýna það hugrekki og þá leiðtogahæfni sem þarf til þess að hægt sé að snúa aftur að samningaborðinu,“ sagði Hague í morgun.

Ráðuneyti Benjamíns Netanyahus, forsætisráðherra Ísraels, ákvað í gær að flýta byggingarstarfi í Austur-Jerúsalem og í nálægum landtökubyggðum í kjölfar þess að UNESCO, menningar-, mennta- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna samþykkti aðildarumsókn Palestínumanna á mánudag.

Þá var ákveðið að frysta tímabundið tollagreiðslur sem Ísraelar innheimta af vörum á leið til Palestínu í höfnum sínum. Það fé er stór hluti af fjármunum palestínskra yfirvalda.

„Þessi áætlun um byggingu landtökubyggða er ólögleg samkvæmt alþjóðalögum og er liður í hrinu ögrandi og ógagnlegra tilkynninga um landtökubyggðir. Ég fordæmi þá ákvörðun að hraða slíkum byggingum,“ sagði Hague.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert