John Atta Mills, forseti Gana, sagði í dag að lögum varðandi samkynhneigð í landinu yrði ekki breytt, þrátt fyrir háværar kröfur Breta þess efnis. „Ég, forseti þessarar þjóðar, mun aldrei eiga frumkvæði að, eða styðja það að bann við samkynhneigð verði afnumið í landinu,“ segir Atta Mills.
Um helgina sagði David Cameron , forsætisráðherra Bretlands, að Bretar myndu hugsanlega hætta að styðja þau ríki fjárhagslega sem viðurkenni ekki mannréttindi samkynhneigðra.
Atta Mills segir Cameron enga heimild hafa til að skipta sér af fullvalda þjóðum, sér í lagi ekki þeim þjóðum sem búi við annars konar samfélagsgerð en Bretar. Gana er fyrrum nýlenda Breta og hefur löngum notið fjárframlaga frá Bretlandi. Stjórnarfar þar hefur verið nokkuð stöðugt.
„Við gerum okkur grein fyrir þeirri aðstoð sem við fáum, en við munum ekki taka við henni ef einhver skilyrði fylgja,“ segir Atta Mills.