Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Grikklandi, Antonis Samaras, hvetur George Papandreou, forsætisráðherra landsins, til að segja af sér. Samaras leggur til að kosningar verði haldnar innan tíðar.
„Ég sagði við Papandreo að best væri að hann segði af sér og að bráðabirgðastjórn yrði komið á laggirnar fram að kosningum,“ sagði Samaras við AFP-fréttastofuna.
Grikkir verða að standa við þá skilmála sem þeim eru settir í björgunarpakka ESB, sem samþykktur var í síðustu viku. Þetta segja forseti ESB, Herman van Rompuy og Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB.
„Lönd Evrusvæðisins eru reiðubúin að standa við bakið á Grikkjum, en Grikkjar verða að standa við sinn hluta samningsins, einkum og sér í lagi hvað varðar samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ sögðu þeir van Rompuy og Barroso í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í dag.