Giorgos Papandreou kann mögulega að segja af sér embætti í dag, að mati grísks blaðamanns. Ríkisstjórnin nýtur ekki lengur meirihlutastuðnings og líklegt að vantrausttillaga verði samþykkt á morgun.
Þetta kemur fram í frétt á norska fréttavefnum ABC Nyheter sem byggð er á frétt frá NTB. Þar er rætt við gríska blaðamanninn Angeliki Boubouka hjá blaðinu Eleftherotipia. Hún segir að líklega komi ekki til þess að greidd verði atkvæði um vantrauststillögu á ríkisstjórnina á morgun.
Unnið sé að myndun nýrrar ríkisstjórnar sem mögulega taki við völdum á næstum klukkustundum. Hlutirnir gerist hratt í Grikklandi þessa stundina. Forsætisráðherrann boðaði aukafund í ríkisstjórninni á hádegi og ætlaði síðan að hitta flokkssystkini sín úr landsstjórn flokksins, að sögn Boubouka.
Vangaveltur voru um það í dag að þrýst yrði á afsögn Papandreou þegar í dag vegna áforma um að bera björgunarpakka ESB undir þjóðaratkvæði. Þá hafa margir þingmenn rætt um að stofnuð verði samsteypustjórn sem taki við völdum tímabundið.
Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar á þingi hafa gengið úr skaftinu einn á fætur öðrum. Ljóst þykir að forsætisráðherrann njóti ekki lengur meirihlutastuðnings á þingi.