Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanyahu, hefur fyrirskipað rannsókn á meintum leka á áformum um að ráðast á kjarnorkuvinnslu Írana. Leikur grunur á að tveir fyrrverandi yfirmenn leyniþjónustu Ísraels hafi lekið áformunum til þess að reyna að koma í veg fyrir að þeim verði fylgt eftir. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
Samkvæmt dagblaðinu al-Jarida í Kúvæt telur Netanyahu að mennirnir tveir, Meir Dagan, fyrrverandi yfirmaður Mossad og Yuval Diskin, fyrrverandi yfirmaður innanríkisleyniþjónustunnar Shin Bet, hafi lekið áformunum. Leiðir blaðið líkum að því að þeir hafi viljað skemma fyrir áformum sem forsætisráðherrann og Ehud Barak, varnarmálaráðherra, hafa gert um að ráðast á valin skotmörk í Íran.
Bæði Dagan og Diskin eru andsnúnir hernaðaraðgerðum gegn Írönum nema að búið sé að útiloka alla aðra kosti, þá helst alþjóðlegan pólitískan þrýsting og jafnvel skemmdarverk. Í janúar lét Dagan hafa það eftir sér að árás á Íran væri „heimskulegasta hugmynd sem ég hef heyrt“.