Dómari sem náðist á myndband hýða dóttur sína verður ekki ákærður fyrir athæfið. Þetta er niðurstaða saksóknara í Texas vegna þess hve langt er liðið frá því atvikið átti sér stað.
Hillary Adams, sem er 23 ára í dag, setti myndbandið á YouTube-vefinn í síðustu viku en þar sést faðir hennar, sem er dómari í Texas, hýða dóttur sína með belti. Yfir fjórar milljónir hafa horft á myndbandið frá því það var sett á netið. Atvikið átti sér stað árið 2004. Fyrningarfrestur í málum sem tengjast ofbeldi gagnvart börnum er fimm ár í Texas.
Hillary Adams segist hafa tekið myndskeiðið með myndavél sem hún faldi á kommóðu sinni. Þá var hún 16 ára gömul. Hún kvaðst hafa birt myndskeiðið til að hjálpa sér að halda áfram.
„Ég sagði: „Ég get sett myndskeiðið af þér að berja mig á netið." Og hann sagði: „Jæja, þú getur gert það ef það lætur þér líða betur.“ Svo ég gerði það,“ sagði Hillary Adams í símaviðtali.
William Adams sýsludómari sagði blaðamanni að hann væri maðurinn í myndskeiðinu og að hann hefði misst stjórn á skapi sínu þegar hann var að refsa dóttur sinni fyrir að hafa hlaðið ólöglega niður tónlist af netinu.