Erkibiskup Flórens í Toskanahéraði á Ítalíu, Giuseppe Betori, slapp naumlega þegar byssumaður veittist að honum en ritari hans, séra Paolo Brogi, særðist alvarlega í tilræðinu.
Málið þykir um margt óvenjulegt sökum þess að talið er að byssumaðurinn sé heimilislaus karlmaður um sjötugt. Að sögn lögreglu gerðist atvikið með þeim hætti að maðurinn nálgaðist bifreið erkibiskups sem ekið var frá skrifstofuhúsnæði og hleypti hann af nokkrum skotum. Hæfði eitt þeirra kvið Brogi en erkibiskup slapp naumlega.
Í kjölfar skotárásarinnar flúði maðurinn af vettvangi og er hans nú leitað. Lögregla hefur handtekið sex heimilislausa menn vegna rannsókn málsins.
Farið var með Brogi á sjúkrahús og gekkst hann undir skurðaðgerð. Að sögn lækna er hann úr lífshættu.
Öryggisgæsla hefur nú verið efld við skrifstofur erkibiskups á meðan árásarmannsins er leitað.