Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælagöngu sem helsti stjórnmálaflokkur vinstri manna skipulagði í Róm á Ítalíu í dag. Krafðist fólkið afsagnar Silvio Berlusconi, forsætisráðherra landsins.
„Silvio farðu" var meðal þess sem sjá mátti á spjöldum mótmælenda sem lýstu megnri fyrirlitningu á forsætisráðherranum sem þeir telja að hafi verið niðurlægður á fundi G20 ríkjanna í gær.
Á ráðstefnu G20 ríkjanna í Cannes reyndi forsætisráðherrann, sem einnig er milljarðamæringur, að draga úr alvarleika efnahagsástandsins á Ítalíu og sagði meðal annars að fullt væri á öllum veitingastöðum og allt flug fullbókað.
„Ég fer á veitingastaði... til þess að vaska upp," var meðal annars skrifað á spjöld mótmælenda.
Berlusconi nýtur nú stuðnings 22% kjósenda og hefur aldrei notið jafn lítils fylgis frá því hann tók við starfi forsætisráðherra.