Arababandalagið á neyðarfundi

Mótmælt í Sýrlandi.
Mótmælt í Sýrlandi. Reuters

Arababandalagið hittist á neyðarfundi í dag þar sem málefni Sýrlands verða rædd, en Sýrlendingar hafa virt að vettugi tilmæli bandalagsins um lýðræðislegar umbætur í landinu. Sýrlenskar öryggissveitir skutu að minnsta kosti tólf manns til bana í dag eftir bænahald, en í dag er einn heilagasti dagur múslíma.

Á fundinum verða utanríkisráðherrar arabalandanna. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hét því í síðustu viku að binda enda á blóðbaðið í landinu, en efndir voru litlar og dagurinn í dag er fjórði dagurinn í röð þar sem öryggissveitir myrða óbreytta borgara í landinu.

Sheikh Hamad bin Jassem al-Thani, forsætisráðherra Katar og talsmaður hópsins, segir að ef Sýrlendingar virði ekki ákvarðanir og tilmæli Arababandalagdsins verði íhugað að grípa til aðgerða.

Nabil al-Arabi, formaður Arababandalagsins, segir að afleiðingarnar gætu orðið Sýrlendingum skeinuhættar og krefst þess að blóðbaðinu linni tafarlaust.

Níu þeirra sem myrtir voru í dag voru í hverfinu Baba Amro í borginni Homs, þar sem mótmæli hafa verið afar tíð.
Einnig voru tveir óbreyttir borgarar skotnir til bana í borginni Hama, sem er í norðurhluta landsins og einn í Idlib-héraði, sem er skammt frá landamærunum að Tyrklandi.

Að auki særðust fjórir mómælendur í bænum Talvi eftir að öryggissveitir skutu á hóp mótmælenda og tugir manna særðust þegar skotið var á mótmælendur í bænum Kafruma.

Að auki skutu öryggissveitir á mótmælendur og beittu táragasi í Kafar Susseh-hverfinu í höfuðborginni Damaskus.

Talið er að að minnsta kosti 60 hafi fallið fyrir skothríð öryggissveita síðan Assad skrifaði undir friðarsamkomulag Arababandalagsins hinn 2. nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert