Betur fór en á horfðist þegar gömul brú hrundi í dreifbýli í Henan-héraði í Kína í gær. Fjórir bílar steyptust í ána en ökumennirnir og farþegarnir sluppu nær ómeiddir.
Að sögn lögreglunnar á svæðinu má rekja slysið til þess að ofhlaðinn vöruflutningabíll ók yfir brúna. Vegna þess hve gömul hún var og lítið haldið við hafði skiltum verið komið fyrir við brúna sem vöruðu fólk við því að keyra yfir hana. Fjöldi ökumenna tók samt áhættuna til að spara sér tíma. Brúin var hönnuð til að þola fimm tonn en vöruflutningabíllinn vó 15 tonn.