Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, neitar alfarið orðrómi þess efnis að hann hyggist segja af sér. „Vangaveltur um afsögn mína eiga ekki við rök að styðjast,“ segir Berlusconi á Facebook-síðu sinni.
Margt bendir til þess að farið sé að hrikta í stoðunum í samsteypustjórn Frelsisflokksins, sem er flokkur Berlusconis og Norðurbandalagsins. Stjórnmálaskýrendur segja að stjórnin hafi ekki lengur þann 316 þingmanna meirihluta sem hún hafði. Þrír þingmenn Frelsisflokksins fóru yfir í miðflokkinn UDC á undanförnum dögum.
Haft var eftir einum nánasta samstarfsmanni Berlusconis í dag að afsögn hans væri spurning um klukkustundir, jafnvel mínútur.
„Ég vil fá að horfa í augun á þeim sem reyna að svíkja mig,“ sagði Berlusconi um þetta í viðtali við dagblaðið Libero.
Þessar vangaveltur um stöðu forsætisráðherrans hafa haft mikil áhrif á verð hlutabréfa á Ítalíu, sem hafa ýmist hækkað eða lækkað í takt við fréttaflutninginn.
„Ítalía er nógu stórt land til að koma ójafnvægi á evrusvæðið,“ segir Cyril Regnat, sérfræðingur í hlutabréfaviðskiptum hjá franska bankanum Natixis. Hann varar við því að staða Ítalíu geti stofnað efnahag allra evrulandanna í hættu.
Giuliano Ferrara, sem var ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Berlusconis árið 1994 og samtarfsmaður hans til langs tíma, segir að afsögn Berlusconis sé eina leiðin til að binda enda á „endalausa pólitíska kvöl“.
Ítalska blaðið Il Giornale, sem er reyndar í eigu fjölskyldu Berlusconis, segir að framámenn í Frelsisflokknum hafi fundað á föstudaginn til að ræða þann möguleika að Gianni Letta, hægri hönd forsætisráðherrans, tæki við stjórnartaumum.