Líkir Ísrael við nýra

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Íran.
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Íran. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Íran, sakar bandarísk og ísraelsk stjórnvöld um að leita eftir stuðningi heimsbyggðarinnar við hernaðaraðgerðir gegn Írönum. Varar hann við slíkum aðgerðum og segir að Ísraelsríki eigi eftir að hrynja von bráðar.

Í viðtali við egypska ríkisdagblaðið al-Akhbar bregst Ahmadinejad harkalega við orðum Shimonar Peres, forseta Ísraels, um helgina en hann sagði að líkur á árás á Íran hafi aukist.

„Geta Írana er að aukast og að þróast og þess vegna geta þeir tekið þátt í heiminum. Núna óttast Ísraelar og Vesturveldin, sérstaklega Bandaríkin, getu og hlutverk Írana. Þess vegna reyna þeir að afla alþjóðlegs stuðnings við hernaðaraðgerð til þess að stöðva það. Hinir hrokafullu ættu að vita að Íran leyfir þeim ekki að grípa til aðgerða gegn sér,“ segir Ahmadinejad.

Hafnaði forsetinn því enn og aftur að Íranar væru að reyna að komast sér upp kjarnorkuvopnum og að kjarnorkuáætlun landsins hefði aðeins friðsamlegan tilgang. Bandarísk stjórnvöld væru að reyna að bjarga síonistaríkinu en það ætti þeim ekki eftir að takast.

„Hægt er að líkja þessari einingu [Ísrael] við nýra sem hefur verið komið fyrir í líkama sem hafnar því. Já, það á eftir að hrynja og endalok þess eru nærri,“ segir forsetinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka