Enn liggur ekki fyrir hver verður næsti forsætisráðherra Grikklands, en háværar raddir eru uppi um að það verði Lucas Papademos. Hann er fyrrverandi bankastjóri Evrópubankans.
Margir stjórnmálamenn ákváðu að gefa ekki kost á sér í embættið, því þeir vilja ekki vera hluti af „kreppustjórninni“. Einn þeirra er George Karatzaferis, leiðtogi hægri manna.
Samkomulag hefur þó náðst um að mynda eigi 100 daga samsteypustjórn og að kosningar verði síðan haldnar í febrúar.
Evrópusambandið krefst þess að stjórnmálaflokkar á Grikklandi undirriti loforð þess efnis að styðja við björgunaraðgerðir sambandsins, en stjórnarandstaðan sagðist enga þörf sjá á slíkum skriflegum loforðum.
Antonis Samaras, formaður stjórnarandstöðunnar í Grikklandi, segist styðja aðgerðir ESB, en að hann ætli ekki að staðfesta það skriflega.
Þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð verður viðræðum haldið áfram um björgunarpakka Evrópusambandsins, sem samþykktur var 27. október.