Íranar segja engan fót vera fyrir þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu kjarnavopnaeftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IAEA, um að Íranar vinni nú að gerð kjarnavopna.
„Þessar staðhæfingar eru ekki nýjar af nálinni,“ segir Ali Asghar Soltanieh, erindreki Írana hjá IAEA. Hann sagði að um væri að ræða endurtekningar á gömlum fullyrðingum, sem hefðu verið hraktar fyrir fjórum árum af IAEA.
Hann sagði að þessar fullyrðingar væru af pólitískum toga spunnar.
Ríkisfréttastofa Írana, IRNA, gaf út yfirlýsingu í dag þar sem segir að skýrslan byggist á gögnum sem hafi komið úr stolinni fartölvu árið 2004.
„Þetta er tilbúningur frá leyniþjónustum vestrænna ríkja. Fullyrðingar um að til séu gervihnattamyndir, sem sýna framleiðslu kjarnavopna í Íran, sýna að engin sérfræðiþekking er á bak við skýrsluna og að hún var búin til í þeim tilgangi til að viðhalda sjónarmiðum Bandaríkjanna,“ segir ennfremur í yfirlýsingu fréttastofunnar.