Býður sig ekki fram aftur

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu Reuters

Sylvio Berlusconi segist ekki ætla bjóða sig aftur fram til þings á Ítalíu en hann tilkynnti í gær að hann mun segja af sér sem forsætisráðherra þegar búið er að samþykkja frumvarp um efnahagslegar umbætur á Ítalíu.

Þess er vænst að ítalska þingið samþykki frumvarpið í lok þessa mánaðar en það kveður á um endurbætur sem eiga að taka vinna gegn þeim vanda sem ítalskur efnahagur er kominn í vegna skuldakreppunnar. Hjá BBC er bent á að þó að takist að draga úr vandanum standi enn eftir skuldafjall upp á 1,9 billjónir evra og nær staðnaður hagvöxtur.

Alfano taki við keflinu

Viðtal við forsætisráðherrann birtist í ítalska blaðinu La Stampa í dag. Þar segist Berlusconi ætla að segja af sér um leið og lögin hafa verið samþykkt. Ekki sé annað í stöðunni en að efna til kosninga þar sem hann sjái ekki að hægt verði að mynda nýjan meirihluta.

Stjórnarandstaðan vill hins vegar að komið verði á þjóðstjórn en forseti Ítalíu Giorgio Napolitano mun ekki ræða framhaldið við þá flokka er sitja á þingi fyrr en frumvarpið hefur farið í gegnum þingið.

Berlusconi bendir á Angelino Alfano fyrrum dómsmálaráðherra og leiðtoga Frelsisflokks síns sem mögulegan arftaka sinn. „Þetta er stund Alfanos,“ sagði Berlusconi. Hann væri vel til forystu fallinn og betri en menn héldu. Allir hefðu samþykkt hann sem leiðtoga.

„Kannski ég taki aftur við sem forseti AC Milan,“ svaraði Berlusconi þegar hann var spurður um hvað tæki nú við en knattspyrnuliðið sem er eitt það virtasta og ríkasta á Ítalíu er í hans eigu.

Allar helstu hlutabréfavísitölur Evrópu hafa hækkað í morgun vegna fyrirhugaðrar afsagnar Berlusconi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert