Gríðarleg fjölgun fátækra á Spáni

Fátækum hefur fjölgað gríðarlega á Spáni undanfarin ár
Fátækum hefur fjölgað gríðarlega á Spáni undanfarin ár Reuters

Fátækt hefur aukist á Spáni en atvinnuleysi mælist nú 21,52% þar í landi sem er mesta atvinnuleysi meðal þróaðra ríkja heims. Talið er að tæplega 22% heimila á Spáni búi undir fátækramörkum. Árið 2007 var hlutfallið 19,7%.

Á tæplega 1,5 milljón heimila er enginn á heimilinu með atvinnu en árið 2007 var þetta staðan hjá tæplega 380 þúsund heimilum á Spáni. 

Gat ekki borgað lengur af íbúðalánum sem bólgnuðu út

AFP fréttastofan fjallar um mál Mariu Jose del Coto Maeso sem hefur búið í yfirgefnu verslunarhúsnæði í höfuðborg landsins, Madríd, síðustu þrjá mánuði. Þar býr hún ásamt fötluðum syni sínum og atvinnulausri dóttur en í húsnæðinu er hvorki aðstaða til að elda né hægt að baða sig. Klósettaðstaða er í húsnæðinu en ekkert heitt vatn.

Fær hún að búa í húsnæðinu eftir að lögregla bar hana út úr íbúðinni sem hún hafði búið í rúm 30 ár þar sem hún gat ekki staðið í skilum með afborganir af húsnæðislánum.

Hún ber sig vel í viðtali við AFP fréttastofuna: Við erum að minnsta kosti með athvarf, Það er fjöldi fólks sem býr á götum úti.

Segja Spán hafa ekkert upp á að bjóða lengur

Tekjur fjölskyldunnar eru um eitt þúsund evrur á mánuði, rúmar 158 þúsund krónur. Hún reyndi að standa við afborganir af lánum en gafst upp þegar greiðslan á mánuði fór úr 600 evrum í 1.300 evrur. Hún getir ekki unnið úti þar sem sonur hennar sem er 26 ára að aldri þarf umönnun allan sólarhringinn eftir alvarlegt slys í æsku.

Dóttir hennar sem er 25 ára að aldri hefur verið án atvinnu eftir að hafa lokið háskólaprófi í sagnfræði fyrir tveimur árum. Hún hóf meistaranám í sagnfræði í október en segist hætta því ef hún fær vinnu í útlöndum enda telur hún að Spánn hafi ekkert að bjóða lengur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert