Hætta er á að til minniháttar átaka komi á Norðurslóðum á næsta áratug vegna baráttu um nýtingu auðlinda. Þetta kemur fram í árlegri áhættumats skýrslu danska varnarmálaráðuneytisins þar sem metið er hvaða áhrif þróun mála á heimsvísu geta haft á Danmörku og blaðamaður Politiken vísar til í umfjöllun sinni um skýrsluna.
Í skýrslunni er því spáð að þrátt fyrir að strandríkin, Rússland, Bandaríkin, Kanada, Noregur og Danmörk (í gegnum Grænland) hafi samþykkt að fylgja samþykkt Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að nýtingu hafbotnsins, komi þau í auknum mæli til með að berjast um þær miklu auðlindir sem aðgengi er að opnast að, um leið og opnast fyrir nýjar siglingaleiðir í Norður-íshafi. „Það getur þýtt að nokkur strandríkjanna muni fylgja pólitískum og lagalegum deilum eftir með því að sýna herstyrk sinn“ (bls. 39) en þó er tekið fram að það sé ólíklegt að til hernaðarátaka komi.
Politiken bendir á að Rússar muni ekki bregðast vel við hafni Sameinuðu þjóðirnar kröfum þeirra um rétt til nýtingar hafbotnsins undir Norðupólnum en Danir hafa meðal annars gert kröfu um nýtingu hans. Skýrslan segir ljóst að Kínverjar sýni Norðurslóðum vaxandi áhuga áhuga sem helgist ekki aðeins af opnun siglingaleiða heldur einnig af vaxandi orku- og hrávöruþörf þeirra.
Aukin spenna þarf ekki að leiða til átaka
Það sé alla vega ljóst að gera má ráð fyrir minniháttar átökum á svæðinu og er í skýrslunni miðað við að það geti átt sér stað fyrir árið 2020. Það geti m.a. annars átt sér stað með áreitni frá herafla annarra ríkja eða vegna deilna um hagnýtingu náttúruauðlinda á við olíuborun eða fiskveiðar á svæðinu.
Tekið er fram að öll strandríki Norðurslóðanna íhugi að styrkja herstyrk sinn á svæðinu til að styðja við kröfur sínar um nýtingu auðlinda. „Með tilliti til þessara sjónarmiða er ljóst að gera má ráð fyrir auknum hernaðarumsvifum bæði á sjó og í lofti á næsta áratug.“ Hins vegar þufi þetta ekki að þýða að kom til hernaðarátaka þó ljóst sé að það verði aukin spenna á svæðinu.
Í skýrslunni er bent á að ekki aðeins séu strandríkin farin að sýna svæðinu aukinn áhuga. Lönd eins og Ísland, Svíþjóð og Finnland séu einnig farin að huga að því auk Frakklands og Bretland.