Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa lagt á það áherslu við Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, að grísk stjórnvöld hafi hraðar hendur við að koma í framkvæmd aðgerðum sem munu forða landinu frá gjaldþroti.
Í dag áttu Merkel og Sarkozy símafund með Papademos, sem sór embættiseið í gær sem leiðtogi bráðabirgðastjórnar landsins. Þau lögðu mikla áherslu á að grísk stjórnvöld komi öllum aðgerðum til framkvæmda sem Grikkir hafa heitið ESB-ríkjunum.
Fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Frakklands að næsta greiðsla neyðarláns ESB-ríkjanna til Grikklands muni aðeins eiga sér stað þegar Grikkir verði búnir að grípa til nauðsynlegra aðgerða.
Merkel og Sarkozy áttu jafnframt annan fund þar sem þau ræddu þróunina á evrusvæðinu og til hvaða ráða sé hægt að grípa til að hraða samkomulaginu sem náðist þann 27. október sl.
Segir í tilkynningu að leiðtogarnir hafi ítrekað þá afstöðu sína að verja evruna.