Stjórnarandstæðingar á Ítalíu fögnuðu fram á nótt yfir því að Silvio Berlusconi sagði af sér sem forsætisráðherra í gærkvöldi.
Berlusconi tilkynnti afsögn sína í gær. Með því lauk skeiði í ítölskum stjórnmálum sem varðað var hneykslismálum og jafnast fá tímabil við það í nýlegri stjórnmálasögu landsins.
Hundruð manna söfnuðust saman í miðborg Rómar til að fagna brotthvarfi Berlusconis. Stuðningsmenn Lýðræðisflokksins, stærsta flokks stjórnarandstöðunnar, gengu um götur Rómar. Pier Luigi Bersani, formaður flokksins, slóst um síðir í hópinn.
„Þetta er augljóslega augnablik mikillar ánægju og á morgun þurfum við að horfast í augu við mörg vandamál en við förum loks að takast á við þau, svo nú skulum við njóta þessa augnabliks hamingju,“ sagði Bersani.
Margir deildu þeirri skoðun með honum. Ein þeirra var Silvia Mazzocchi, íbúi í Róm sem sagði:
„Þetta er mjög ánægjulegt, að geta séð endalok erfiðs tímabils sem var eins og martröð fyrir marga. Ef til vill er ánægjan ekki eins mikil og hún hefði getað verið, nú þegar við fáum „félaga“ Monti en við skulum vona það besta. Það getur ekki orðið verra en fráfarandi ríkisstjórn, við sjáum til.“
Búist er við að Mario Monti, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Evrópusambandinu, verði falið að mynda ríkisstjórn til að taka á efnahagsvandanum.