Hermanna, sem fallið hafa allt frá því í fyrri heimsstyrjöldinni, var minnst jafnt í Bretlandi og Afganistan á minningardegi fallinna hermanna.
Elísabet Englandsdrottning, hirð hennar og stjórnmálamenn sameinuðust uppgjafarhermönnum þegar fallinna breskra hermanna var minnst í dag, sunnudag.
Blómsveigir voru lagðir við minnisvarða óþekkta hermannsins. Meira en sjö þúsund fyrrum hermenn tóku þátt í athöfninni auk fleiri gesta, þeirra á meðal voru um sextíu ekkjur fallinna hermanna.
Alvarleg athöfnin var haldin á sama tíma og hart er deilt um þúsundir starfa í breska hernum. Á minnisblaði sem lekið var úr breska varnarmálaráðuneytinu kemur fram að meira en 16.000 störf kunni að tapast.
Herinn hefur sagt að engir særðir hermenn muni missa stöður sínar, en sum dagblöð segja að svo kunni að fara í væntanlegum niðurskurði. Hundruð breskra hermanna tóku þátt í minningarathöfn í Helmand-héraði í Afganistan. Nöfn fallinna hermanna voru lesin upp.
Hermaður, sem nýlega féll þegar heimatilbúin sprengja sprakk, var 385. Bretinn til að falla í ófriðnum í Afganistan.