Slæm byrjun hjá danskri ríkisstjórn

Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Dana.
Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Dana. Reuters

Ný rík­is­stjórn mið- og vinstri­flokka í Dan­mörku byrj­ar valda­tíma sinn ekki sér­lega vel og skoðanakann­an­ir, sem birt­ar voru um helg­ina, sýna að dansk­ir kjós­end­ur virðast sjá eft­ir að hafa komið Helle Thorn­ing-Schmidt, leiðtoga Jafnaðarmanna­flokks­ins, í for­sæt­is­ráðherra­stól­inn.

Sam­kvæmt skoðana­könn­un, sem Jyl­l­ands-Posten birti í gær, telja aðeins 27,3% Dana að Thorn­ing-Schmidt sé best til þess fall­in að tak­ast á við efna­hagserfiðleika sem hag­fræðing­ar sjá framund­an í Dan­mörku. 46,4% sögðust hins veg­ar telja að Lars Løkke Rasmus­sen, leiðtogi Ven­stre og fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, væri heppi­leg­asti leiðtog­inn í þeirri stöðu.

Í sams­kon­ar könn­un í janú­ar sögðust 44,5% treysta Lars Løkke best til að fást við efna­hags­sam­drátt en 37,2% sögðust treysta Thorn­ing-Schmidt best. 

Þá birt­ir Berl­ingske í dag könn­un, sem sýn­ir að fylgi Ven­stre hef­ur stór­auk­ist á þeim tveim­ur mánuðum, sem liðnir eru frá þing­kosn­ing­un­um í Dan­mörku, en á sama tíma hef­ur fylgi Jafnaðarmanna­flokks­ins minnkað mikið.

Sam­kvæmt könn­un­inni myndi Ven­stre bæta við sig 8 þing­sæt­um ef kosið væri nú en Jafnaðarmanna­flokk­ur­inn tapa fjór­um þing­sæt­um. Nú­ver­andi stjórn­ar­andstaða fengi ör­ugg­an meiri­hluta. 

Blaðið hef­ur eft­ir Rune Stu­ba­ger, stjórn­mála­fræðingi hjá Árósa­há­skóla, að þessi könn­un end­ur­spegli að nýja rík­is­stjórn­in hafi þurft að fást við ýmis vanda­mál í fjöl­miðlum sem hafi skyggt á stærri mál­in og þá staðreynd að bæði sé búið að leggja fram fjár­laga­frum­varp og nýja hag­vaxtaráætl­un.

Þá hafi Ven­stre-liðar komið full­ir sjálfs­trausts frá þing­kosn­ing­un­um og ráðist harka­lega á nýju rík­is­stjórn­ina. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert