Upphafskona Bleika borðans látin

Út um allan heim er október tileinkaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini …
Út um allan heim er október tileinkaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini og konur og menn út um allan heim kaupa og bera Bleika borðann til styrktar átakinu. Reuter

Evelyn Lauder, tengdadóttir snyrtivörujöfursins Estée Lauder, lést á heimili sínu í gær, 75 ára að aldri, en hún hafði um tíma barist við krabbamein í legi. Það voru Evelyn og vinkona hennar, Alexandra Penney, sem voru upphafskonur Bleika borðans, árvekniherferðar gegn brjóstakrabbameini, sem þær hrundu fyrst af stað 1992.

Lauder greindist með brjóstakrabbamein 1989 og í upphafi greiddu hún og maðurinn hennar, Leonard Lauder, fyrir litlu bleiku borðana sem seldir voru í snyrtivöruverslunum til styrktar baráttunni gegn brjóstakrabbameini.

„Það hafði ekkert verið fjallað um brjóstakrabbamein, en röð atvika; bleiki borðinn, liturinn, umfjöllunin, samstarfið við Elizabeth Hurley, Estée Lauder-auglýsingar í fjölda tímarita og viðleitni mín til að fá vini mína sem eru heilsu- og fegurðarritstjórar til að skrifa um brjóstakrabbamein - þetta fékk fólk til að tala,“ sagði Lauder eitt sinn í viðtali.

Lauder, sem fæddist í Vín en flúði ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna í seinni heimstyrjöldinni, var einnig stofnandi rannsóknarsjóðsins Breast Cancer Research Foundation, sem safnað hefur meira en 350 milljónum dollara til rannsókna á brjóstakrabbameini.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka