Þingmaður Repúblikana og fyrrum forsetaframbjóðandi, John McCain, segir forsetaefni flokksins hafa valdið sér vonbrigðum þegar þeir lýstu því yfir, allir nema tveir, að næðu þeir kjöri myndu þeir taka aftur upp svokallaðar vatnspyntingar, eða „waterboarding.“
Þessari afstöðu sinni lýstu frambjóðendurnir í kappræðum á laugardag en strax á sunnudag gagnrýndi Barack Obama Bandaríkjaforseti þá harðlega fyrir að vilja leyfa yfirheyrsluaðferðina, sem hefði skaðað orðspor Bandaríkjanna um allan heim.
„Hún gengur í berhögg við amerískar hefðir,“ sagði forsetinn. „Hún gengur í berhögg við hugsjónir okkar. Við erum ekki svona. Svona vinnum við ekki. Við þurfum ekki á henni að halda til þess að getað barist gegn hryðjuverkum. Og við gerðum rétt í því að binda enda á notkun hennar,“ sagði forsetinn um aðferðina.
Þegar einstaklingur er beittur „waterboarding,“ sem ýmist er kölluð pynting eða yfirheyrsluaðferð eftir því hvaða afstaða er tekin til hennar, er yfirleitt klútur settur yfir andlit viðkomandi, honum haldið föstum á bakinu og vatn látið leka framan í hann með þeim afleiðingum að viðkomandi líður eins og hann sé að drukkna.
„Varð fyrir miklum vonbrigðum með afstöðu frambjóðendanna varðandi waterboarding í kappræðunum,“ sagði McCain í morgun. „Waterboarding er pynting.“