Hæstiréttur fjallar um umdeild lög

Obama á mikið undir því að dómstóllinn komist að þeirri …
Obama á mikið undir því að dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að lögin standist stjórnarskránna. Reuter

Hæstiréttur Bandaríkjanna mun fjalla um lögmæti umdeildra laga sem samþykkt voru í fyrra og fjalla um endurbætur á heilbrigðiskerfinu þar í landi. Dómstóllinn mun líklegast taka málið fyrir í mars á næsta ári og kveða upp dóm í júní.

Lögin þykja marka tímamót en samkvæmt þeim verða allir bandarískir þegnar að vera sjúkratryggðir fyrir árið 2015 eða greiða refsiskatt ella. Enn fremur verður atvinnurekendum skylt að tryggja starfsfólk sitt og tryggingafélögum verður óheimilt að innheimta hærri iðgjöld af þeim sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða.

Deilt er um hvort lögin standist bandarísku stjórnarskránna en Repúblikönum þykir alríkið þarna seilast langt út fyrir valdsvið sitt með því að neyða fólk til þess að tryggja sig. Komist hæstiréttur hins vegar að þeirri niðurstöðu að lögin standi, verður það mikill sigur fyrir Barack Obama, en lögin voru eitt af helstu baráttumálum hans fyrir forsetakosningarnar 2008.

Óumdeilt er að úrskurðurinn muni hafa talsverð áhrif á næstu forsetakosningar vestanhafs, en þær fara fram í nóvember, fimm mánuðum eftir að hæstiréttur áætlar að skila niðurstöðu sinni.

Af fjórum áfrýjunardómstólum sem hafa fjallað um málið, fann einn þeirra að lögunum en á fyrri stigum féllu dómar eftir flokkalínum, þ.e. dómarar sem settir voru í embætti af demókrata sögðu lögin standa en dómarar settir í embætti af repúblikana sögðu þau ekki standast stjórnarskránna.

Hér má lesa ítarlega frétt um málið á Huffington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert