Sautján ára gamall piltur, sem slapp naumlega á Úteyju í sumar þegar Anders Behring Breivik gekk þar um og skaut á fólk, var í réttarsalnum í Ósló þegar krafa lögreglu um lengra gæsluvarðhald yfir Breivik var tekin fyrir í dag.
„Það hjálpaði að sjá hann. Hann var ekki eins ógnvekjandi í dag. Ég sá aðeins algerlega truflaða manneskju, sem hefur misst öll tengsl við raunveruleikann," hefur vefur Aftenposten eftir Sondre Lindhagen Nilssen.
Nilssen segir að þungu fargi hafi verið af sér létt. „Hann getur engan skaðað framar. Ég er ánægður með að mér hafi tekist að stíga enn eitt skref framávið. En ég býst ekki við að ég nái mér nokkurn tímann að fullu."
Nilssen flúði undan Breivik á Úteyju í sumar og heyrði kúlur hvína nálægt sér. Á flóttanum tók hann með sér tvær 14 ára stúlkur sem hann kannaðist við og þeim tókst að fela sig í helli við strönd eyjarinnar.
Annar piltur, Herman Heggertveit, var í réttarsalnum í dag en hann var einnig á Úteyju í sumar.
„Ég var andvaka í nótt en ég sé ekki eftir að hafa komið. Mér er afar létt að hafa tekist að stíga þetta skref," segir hann við Aftenposten.
Torkjel Nesheim, dómari, féllst á kröfu lögreglunnar um að Breivik sitji áfram í gæsluvarðhaldi næstu tólf vikurnar. Hann verður jafnframt áfram í einangrun næstu átta vikur.