Yfirvöld í nágrannaríkjunum Níger og Búrkína Fasó í Afríku hafa lýst yfir áhyggjum vegna þess mikla magns vopna sem nú er í umferð í Líbíu eftir fall Múammars Gaddafis fyrrum leiðtoga landsins. En liðsmenn Gaddafis bjuggu yfir miklu vopnabúri sem nú liggur sem hráviði á víð og dreif um landið.
„Þetta er til þess fallið að valda þungum áhyggjum. Sala og dreifing á vopnum er ógn við stöðugleika á svæðinu,“ segir Rafini Briji, forsætisráðherra Níger. Segir hann að í kjölfar falls Gaddafis hafi vopnageymslur liðssveita fyrrum leiðtoga verið opnaðar og fólk tekið vopnin án alls eftirlits. Að sögn berst hluti vopnanna óséður ríkja á milli.
Segir Briji að ríkin muni efla landamæraeftirlit sitt til muna í von um að hefta útbreiðslu þeirra en óttast er að hluti vopnanna muni enda í höndum liðssveita Al-Qaeda.