Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, og forseti leiðtogaráðs sambandsins, Herman van Rompuy, tilkynntu í dag að stefnt yrði að auknum samruna innan þess með útgáfu evruskuldabréfa í viðleitni til þess að stemma stigum við efnahagskrísunni á evrusvæðinu. Slík skuldabréf yrðu gefin út á ábyrgð allra ríkjanna sem eiga aðild að svæðinu.
„Við stöndum nú frammi fyrir raunverulegri kerfislægri krísu. Það er ljóst að við verðum að stefna að auknum samruna í átt að sameiginlegri efnahagsstjórn, einkum innan evrusvæðisins,“ sagði Barroso í ræðu í Evrópuþinginu í gær miðvikudag. Fram kom í máli hans að hann ætlaði að leggja fram áætlun í næstu viku „um sameiginlega útgáfu skuldabréfa á evrusvæðinu.“
Van Rompuy sagði í ræðu sinni í þinginu að yfirstandandi krísa þýddi að evruríkin hefðu ekkert val í þessum efnum. „Krísan á evrusvæðinu krefst þess af okkur að við gerum meira. Við verðum að viðurkenna að það þýðir að öll ríki evrusvæðisins verða að deila fullveldi sínu og ekki einungis að ríkin sem eru í vanda þurfi að gefa eftir,“ sagði van Rompuy.
Þetta kemur fram á fréttaveitunni Euobserver.com í dag.