Evrópusambandið er að renna út á tíma við að finna lausn á efnahagskrísu evrusvæðisins að mati aðalhagfræðings alþjóðlega bankans Citibank, Willems Buiter. Þetta kom fram í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna en fréttavefurinn Euobserver.com greinir frá þessu í dag.
Buiter sagðist telja að ESB hefði „fáeina mánuði - hugsanlega vikur, hugsanlega daga“ áður en Spánn og Ítalía lentu í greiðsluþroti nema Evrópski seðlabankinn fallist á að verða lánveitandi til þrautavara og komi ríkjunum tveimur til bjargar.
Forystumenn Evrópska seðlabankans hafa að undanförnu þvertekið fyrir það að bankinn taki að sér það hlutverk að vera lánveitandi til þrautavara fyrir evruríki í erfiðleikum.