Verið er að undirbúa mótmæli víða í Bandaríkjunum til að minnast þess að tveir mánuðir eru liðnir frá því svokölluð Occupy Wall Street mótmæli hófust í New York, en mótmælin hafa beinst gegn fjármálakerfinu.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir embættismönnum að líkur séu á því að mótmælendur í tugþúsundatali muni safnast saman á götum úti í New York.
Skipuleggjendur mótmælanna vonast til að götuhátíð og fjöldamótmæli verði haldin við bandarísku kauphöllina frá kl. 7 að staðartíma (kl. 12 að íslenskum tíma).
BBC segir að það hafi verið búið að skipuleggja mótmælin áður en lögreglan rýmdi Zuccotti almenningsgarðinn sl. þriðjudag, en þar höfðu mótmælendurnir slegið upp tjaldbúðum.
Talið er að það muni koma í ljós í dag hvort enn sé líf í hreyfingunni sem hefur blásið baráttuanda í brjóst annarra mótmælenda, bæði í Bandaríkjunum og um allan heim.