Fimmtán ára gamall piltur, sem nýtir sérkennslu í skóla í New Jersey í Bandaríkjunum, sætti einelti af hálfu kennara síns. Hann náði myndum af kennaranum á farsíma sinn og tókst þannig að sanna mál sitt.
„Ekki segja að ég hafi sérþarfir," segir pilturinn, Julio Artuz, á myndskeiðinu,
„Hvað, ó, Guð, andsk... Hvað stendur á skiltinu sem stendur við skólann? Sérkennsla," segir kennarinn og bendir á gagnaugað til að gefa til kynna að Julio sé klikkaður.
„Ekki segja að ég hafi sérþarfir," endurtekur Julio.
„Ég segi það sem mér sýnist. Finnst þér það leiðinlegt? En leiðinlegt," segir kennarinn.
Bandaríska netblaðið Huffington Post fjallar um málið og hefur eftir föður drengsins, að hann skammist sín fyrir að hafa ekki trúað honum fyrr en hann sá myndskeiðið.
Kennaranum hefur nú verið vikið tímabundið úr starfi á meðan málið sætir rannsókn.